Öll lögin sem verða flutt eru eftir Sri Chinmoy (1931-2007). Sri Chinmoy var á ævi sinni þekktur sem hugleiðslukennari, andlegur maður, friðflytjandi, rithöfundur, íþróttamaður, myndlistarmaður og síðast, en ekki síst, tónlistarmaður.

Einföld lög hans spretta úr djúpum brunni andlegrar reynslu og bera með sér frið, kærleika og andlegan kraft þess sem býr yfir innri ró. Þessi eiginleiki tónlistarinnar hefur fundið hljómgrunn meðal tónlistarmanna á ýmsum sviðum og má t.d. nefna Ravi Shankar, Quincy Jones, Sting, Leonard Bernstein og Yehudi Menuhin.

Sri Chinmoy hélt tæplega 800 friðartónleika á ævi sinni, en þá flutti hann tónlist sína með fjölbreyttum hætti um víða veröld. Margir muna eflaust eftir tvennum friðartónleikum sem hann hélt í Háskólabíói, árin 1988 og 2000. Sri Chinmoy tók aldrei gjald fyrir tónleika sína, í þeirri trú að sá innri friður og gleði sem hann leitaðist við að koma á framfæri í gegnum tónlist sína væri eitthvað sem öllum mönnum bæri.

Tónleikarnir á Íslandi eru haldnir í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því að Sri Chinmoy heimsótti Ísland og hélt fyrirlestra á Akureyri og í Reykjavík.